Heillaríka Hörpu!
Gleðilegt (nýtt) sumar! Margt fólk steig á stokk á nýju ári og strengdi sér einhver áramótaheit. Oft var það í þágu betri heilsu. Þurr janúar og edrú febrúar voru vinsælar heitstrengingar. Sjálfur hélt ég heimspekikaffi um vínlausan lífsstíl í fimm skipti fyrir fullu húsi í tilefni af bókinni Vending sem fjallar um sama efni. Bókin seldist vel og fólk reyndist áhugasamt um að tileinka sér þennan lífsstíl.
Nú er veturinn liðinn og sumarið gengið í garð, að minnsta kosti er Sumardagurinn fyrsti runninn upp. Hvers vegna ekki að strengja sér einhver sumarheit? Slagorðið þurrt sumar gæti misskilist en hvað með skapandi sumar, skýrt sumar eða heilnæmt sumar?
Harpa hefst í dag, Sumardaginn fyrsta. Hörpumánuður í gamla norræna tímatalinu er fyrsta tímabil sumarsins og stendur til 25. maí. Hvað með hugrökk Harpa, hamingju Harpa, hraust Harpa eða heillarík Harpa?
Hörpuheitið stendur þá í einn mánuð undir slagorðinu heillarík Harpa og felur í sér heilsubót, allt eftir stað, stund og getu. Það gæti verið útivera, það gæti falist í hreyfingu, mataræði og vínlausum lífsstíl.
Heillaríka Hörpu!