Endurheimt á rósemd hjartans

Tíminn líður hvorki hægt né hratt, hann bara líður, samur við sig. Það er fremur auðvelt að hægja á. Það er til dæmis gert með því að endurskoða stundatöfluna.

Tíminn er ekki á okkar valdi heldur hegðun og hugsun og val á verkefnum. Við höfum ekki vald yfir dögunum og tæplega yfir líkamsklukkunni. Við breytum ekki tímanum en við getum breytt mynstri, venjum og viðhorfi.

Það er sama hvað við kvörtum mikið yfir hraðanum í samfélaginu og verðum óánægð með hvað við komum fáu í verk, ekkert breytist fyrr en hugurinn kyrrist og við temjum okkur heillavænt hugarfar.

Valkostirnir eru eflaust margir og margslungnir, jafnvel þótt við höfum tapað hugarró okkar um stund. Það er mikilvægt að endurheimta rósemd hjartans því hún er eitt af skilyrðum hamingju.

Vitaskuld getur engin manneskja verið fullkomlega hamingjusöm nema í sviphendingu, það er oftast eitthvað sem angrar. Raunhæfara markmið er andlegt jafnvægi í gegnum súrt og sætt, þykkt og þunnt.

Það eru ekki aðeins aðstæður, tíminn og aðrar manneskjur sem hafa áhrif á hamingjuna, heldur einnig eigin vilji, dómar, skoðanir og viðhorf okkar sjálfra sem ráða hvernig okkur líður.

Það tekur tíma að móta gilda skoðun. Algeng mistök eru að mynda sér skoðun á of skömmum tíma, gleypa við skoðunum annarra eða samþykkja hugsunarlaust hættulegar skoðanir sem auka á þjáningu.

Önnur mistök eru að hætta að gera greinarmun á mikilvægum fréttum og þýðingarlausum upplýsingum, enda er þeim oft blandað saman á sömu fréttasíðunni, allt í belg og biðu. Hugurinn verður þá eins og gatasigti, allt rennur í gegn og við verðum skeytingarlaus, fyllumst vanlíðan, leggjum á flótta, missum athyglina og látum leiða okkur þangað sem við viljum ekki að fara.

Ef við áttum okkur á því að hamingjan er háð viðhorfi okkar til hlutanna og stundinni sjálfri, róumst við. Vitaskuld veltur vellíðan hvers og eins á aðstæðum og kjörum en verkefnið er ekki að vera hlutlaus áhorfandi á meðan lífið líður hjá heldur að hrífast eða mótmæla án þess að tapa sér, án þess að brenna út.

Hamingjan fæst með því að vera í stundinni sem er að líða, en ekki með hugann við gærdaginn eða morgundaginn. Stilla væntingum í hóf og gleyma sér við það sem vekur áhuga og við unum okkur best við.

Previous
Previous

Við höfum öll gjöf að gefa

Next
Next

Yazan, Kant og sið­leg breytni á Ís­landi