Við höfum öll gjöf að gefa
Gjöfin er leyndardómur vegna þess að hún hefur víðara svið en hönd verður fest á. Gjafir eru ekki eins og hver önnur vara sem stendur til boða á skiptimarkaði þar sem æ sér gjöf til gjalda. Goðsögnin um gjöfina er að gefandi vænti gjafar til baka. Við gefum þá hvert öðru og eru jöfn og skuldlaus. Það er ágætt en hugtakið hefur margfalt meiri dýpt og vídd – sem þarf að kanna.
Gjöfin er styrkleiki hvers og eins sem ber að efla og rækta. Hugtakið vöggugjöf mætti endurnýja í þessu samhengi. Það merkir að þá er gjöf, eða þær gjafir sem sérhver býr yfir frá upphafi tilveru sinnar; eiginleiki, persónueinkenni, kynvitund. Þessar gjafir falla ekki undir félagsmótun og geta verið á skjön við ríkjandi (kynja)kerfi eins og þegar einstaklingur er flokkaður sem karl eða kona en upplifir sig ekki í samræmi við það.
Vöggugjöf felur í sér að hvert barn geymi innra með sér gjafir sem það getur ræktað og orðið fullnuma.
Hver við erum, hver við viljum og þráum að vera á rætur í vöggugjöfinni.
Við látum ekki aðra segja okkur hver við erum, við forðumst múgsefjun og leggjum það á okkur að verða þau sem við erum. Að vera er að verða. Við erum verðandi.
Að breyta sjálfum sér felst í frelsun frá því sem truflar okkur og krafti til að vinna verkið sem gjöfin býður upp á. Við þurfum að einbeita okkur að því að opna betur fyrir gjöfinni. Smátt og smátt breytist vaninn og hugarstarfið styður þá kröftuglega við áformin.
Það óvænta er að eftir að við höfum fundið gjöfina, einbeitt okkur að henni og leyft henni að blómstra, þurfum við að gefa öðrum af henni, ausa af brunninum!
Sérhver finnur sína eigin gjöf en til að rækta hana og gefa þarf:
Hraustan heila eftir góðan svefn, tíma til að hugsa og sækjast áfram eftir reynslu.
Skýran huga til að meta hlutina og draga ályktanir.
Skapandi hjarta til að finna leiðir og til að sjá það sem ekki blasir við.
Ekki gefast upp, haldið áfram, ef þetta tekst þá getum við orðið öðrum að liði. Verkefnið núna er að flæða með henni.
Við finnum hver vöggugjöfin er, þegar við gefum af okkur.
Gjöfin er eins og hreint drykkjarvatn, dýrmæt og þarfnast virðingar. Það er auðvelt að gefa af sér og plássið sem losnar við gjöfina fyllist aftur.
Ef við hættum að gefa öðrum, ekkert er tekið af, þá endurnýjast vatnið ekki, verður staðið og sjatnar.
Við höfum öll gjöf að gefa, ef þið finnið hana, gefið af henni.