Afhjúpanir
Gunnar Hersveinn flutti ræða á Austurvelli 20. apríl 2024 fyrir Félagið Ísland og Palestína. Þar koma fram sjö afhjúpanir á hugarfari og misferli.
Afhjúpanir sem blasa við, eftir að þjóðarmorðið í Palestínu hófst fyrir hálfu ári, eru skerandi, þær skera í hug okkar og heila, líkama og sál. Við horfum til hliðar eða niður til að hvíla okkur á þessari skelfingu en hún er særandi staðreynd sem engin leið er að þurrka út eða stroka yfir. Hugarfar hefur afhjúpast, saga hefur afhjúpast, misferli, vilji, hugleysi og skeytingarleysi. Skoðum nokkrar afhjúpanir af þeim fjölmörgu sem hafa opinberast.
Fyrsta afhjúpun um kynþáttafordóma
Ég skrifaði nýlega grein í Heimildina um kynþáttafordóma nýlendu- og heimsvaldaþjóðanna. Spurði: Getur það verið að bak við grimmdarverk í sögunni, grimmdarverk eins og þjóðarmorð, standi oftast valdamenn og valdamikil stjórnvöld sem þyrstir í land og auð? Já, það er líkleg tilgáta.
Frumbyggjar á tímum landafundanna í Ameríku, Afríku, Ástralíu og hvar sem helstu nýlenduþjóðir gerðu sig heimakomnar, áttu enga von. Flest innfædd voru drepin eða tekin höndum og flutt í burtu og seld sem þrælar. Engin virðing sýnd, heldur var þeim skipað neðst í virðingarstigann, sem annars flokks fólk, villimenn andspænis hrokafullu innrásarliði. Ofbeldinu lauk ekki þar, því síðar urðu líkamsleifar frumbyggja að vinsælum varningi meðal fræðimanna, auðmanna og safna. Hauskúpur, beinagrindur og múmíur voru grafnar upp og flutt í burtu til að selja, safna og skipta. Engin samkennd.
Sigurvegararnir skrifuðu svo söguna og breiddu yfir eigin hrottaskap – en hann birtist okkur aftur og aftur og núna í beinni útsendingu í Palestínu.
Helstu nýlendulönd Evrópu voru; Portúgal, Spánn, England, Frakkland, Holland, Belgía, Ítalía og Þýskaland og Danmörk. Nýlendustefnan felur í sér að valdameira ríki hernemur valdaminna ríki til að græða á nýlendunni. Á tímabili réðu Evrópuríki og Bandaríkin um 80% af landflæmi jarðar. Við búum enn við afleiðingarnar.
Önnur afhjúpun um sannleikann
Ef þið nemið sannleikann í hjartanu, ekki láta afvegaleiða ykkur. Við vitum hvað er satt, hvað er heilagt og helg jörð, það eru börnin. Þau njóta alltaf og ávallt friðhelgi, án undantekningar, án vafa.
Ríkisstjórn Íslands hefur ekki gert nóg, hún hefur brugðist of oft. Það kostar greinilega hugrekki að standa með kúguðum. Valdakarl á Íslandi talaði um að það sé hörmung að sjá tjaldbúðir við Austurvöll, það sé óboðlegt á þessum helga stað, að þar sé flaggað þjóðfána Palestínu, að það sé hræðilegt að Ísland taki við fleira Palestínufólki heldur en önnur Norðurlönd. Enga samkennd er hér að finna. Ef ráðamenn hafa meiri áhyggjur af því sem gerist á Austurvelli heldur en Gaza, og vilja bara fá að vera í friði og tala um eitthvað annað, þá er það afhjúpun. Þetta kallast forvirk undanlátssemi: atkvæðagreiðslan hjá SÞ þar sem Ísland sat hjá og greiðslustöðvun á hjálparstarfi vegna Palestínuflóttamannahjálpar SÞ. Látum ekki afvegaleiða okkur! Sannleikurinn er annars staðar. Hin sanna friðarregla hljómar svona: særið engan. Friðarreglan er grunnurinn og ef henni er fylgt er hægt að gefa öðrum góðar gjafir. Þar er sannleikurinn.
Það krefst hugrekkis að velja regluna um friðinn: að nema staðar og hlusta á innri rödd mannshjartans, röddina sem velur lífið. Friðarreglan skilgreinist ekki af stríði og hún merkir ekki stríðslaust ástand eða vopnahlé eins og flestallir heimsleiðtogar virðast telja. Hún er friðarmenning sem skapar jafnvægi og öryggi. Hún segir ekki hvað fólk á að gera, heldur aðeins hvað það megi ekki gera. Við drepum ekki börn.
Þriðja afhjúpun um orðin
Fyrirsögn í Morgunblaðinu.„Palestínuarabar tvöfölduðust í fyrra á Íslandi.“ Þetta er hræðsluáróður. Orðatiltækið „rétturinn til að verja sig“. Ísrael hefur rétt til að verja sig. Stjórnvöld í Ísrael og fleiri leggja gagnrýni á réttinn til að verja sig að jöfnu við gyðingahatur. Að hafa rétt til að verja sig merkir ekki að hafa rétt til að fremja þjóðarmorð. Hvenær glatar þjóð réttinum til að verja sig? Mögulegt svar: Þegar barn er drepið eða sært í hennar nafni á 10 mínútna fresti svo mánuðum skiptir. Reglan um að hlífa börnum hefur ávallt verið í forgrunni, en börnin á Gaza njóta ekki, og hafa ekki notið verndar. Nú virðast þau vera réttdræp, þetta hefur afleiðingar í öllum stríðum.
Börn þurfa VERND og VOPNAHLÉ. STRAX! En valdaríkin segja við ríkisstjórn Ísraels: Þið gerið ekki nóg til að vernda óbreytta borgara. Það er allt of sumt.
Fyrir tíu árum gaf friðarverðlaunahafi Nóbels, Malala frá Pakistan, sem er fædd árið 1997 og varð heimsfræg eftir að talibani skaut hana í höfuðið árið 2012 á leið heim úr skólanum, börnum á Gaza 31 þúsund pund eða rúmar 6 milljónir króna til endurbyggingar á skólum á Gaza eftir stríðsrekstur Ísraelsmanna gegn Palestínumönnum. Hún vildi byggja upp friðinn en valdakarlarnir núna myrða reglulega börn. Ég skrifaði árið 2013:
Börn í Damaskus í Sýrlandi fóru á fætur einn morgun í ágúst 2013, en átök hófust þar árið 2011. Þau skriðu fram úr eða stóðu upp af hörðu gólfinu. Himinninn var ógnvænlegur eins og venjulega. Þau fóru í skólann sinn eða þvældust um götur með foreldrum sínum í leit að athvarfi og mat. Þennan dag voru þau myrt, drepin með efnavopnum og líkunum var raðað upp í stórum sal þar til hann var fullur. Næsta dag var mokað yfir þau í fjöldagröf. Þetta voru börnin í Damaskus, áður voru það önnur börn í Írak, á Gaza, í Líbíu og á morgun enn önnur börn sem verða ofbeldi og stríði að bráð.
Morgundagurinn er runninn upp. Í frétt fyrir 10 dögum stóð: „Ísraelsher hefur að meðaltali drepið 75 börn á dag á Gaza frá sjöunda október.“ Hefur herinn rétt til að verja sig fyrir þessum börnum – sem ógna þeim ekki?
Fjórða afhjúpun um landamæri
Evrópa er sú heimsálfa þar sem fæst börn fæðast, þar sem verið er að herða lög og reglugerðir á landamærum. Á Íslandi eru innviðir víst komnir að þolmörkum, styrkja á lögregluna, beina hælisleitendum annað, gera þeim erfiðara um vik að leggja á flótta að heiman. Í kjölfar aukins fjölda flóttafólks til Evrópu árið 2015 byrjuðu evrópsk ríki í auknum mæli að draga fólk fyrir dóm fyrir einfalda mannúð, allt frá því að gefa manneskju vatn eða mat til þess að bjarga einhverjum stöddum á rúmsjó frá fyrirsjáanlegri drukknun. Slíkt hefur verið kallað samstöðuglæpir. (Kristín Loftsdóttir, 2020: Kynþáttafordómar í stuttu máli, bls. 95). Evrópuþingið samþykkti núna í apríl nýjar og harðari reglur við landamærin sín. Amnesty International greindi þessar reglur og sagði að þær muni hafa í för með sér mannlega þjáningu í auknum mæli. Það er sár afhjúpun á vilja Evrópuþingsins.
Okkar verkefni, sem hér erum, er að sporna gegn kerfisbundnu ofbeldi og þjóðarmorðum sem eiga sér stað um þessar mundir og beina sjónum að framtíð og uppbyggingu samfélaga í sátt og samlyndi, og huga að þeim sem búa við kúgun og arðrán valdamanna og ríkja.
Fimmta afhjúpun um stríð
Er þetta stríð á Gaza? Nei, þetta er þjóðarmorð kjarnorkuveldis sem á Bandaríkin og Evrópuríkin sem vini. Hér væri hægt að nota hugtakið samstöðuglæpir. Þjóð sem enn þá skákar í skjóli þess að Ísrael hafi rétt til að verja sig með þjóðarmorði á andstæðingi sínum, fremur samstöðuglæp. Það er samstöðuglæpur með ríkisstjórninni í Ísrael, það er afhjúpun.
Börn þurfa vernd og frið. Núna! Börn á Gaza svelta og deyja. Samtökin Save the Children segja að 14 þúsund börn hafi verið drepin á Gaza, 75 á dag frá því í október.
Við segjum Vopnahlé strax, vegna þess að árásin sem staðið hefur yfir í hálft ár er miskunnarlaus og það tekur áratugi að byggja upp frið og friðarmenningu. Við getum ekki fengið frið strax, það er ekki hægt, það þarf að byggja hann upp. Hvenær mun hatrið fjara út? Átakasaga Ísraela og Palestínumanna er kölluð hin fullkomna deila. Eða hvernig eiga Ísraelar og Palestínumenn að geta búið saman í sátt og samlyndi og friður og réttlæti ríkt á svæðinu, þegar umráðasvæði Ísraela stækkar dag frá degi og fleiri og fleiri Palestínumenn deyja eða verða flóttamenn?
Alþjóðasamfélagið hefur brugðist Palestínumönnum í gegnum tíðina, en hvern grunaði að valdamestu ríkjunum væri líka nákvæmlega sama um börnin þeirra? Svikin við þau urðu algjör eftir að reistir voru múrar og vegatálmar.
Það eru til þúsund bækur um deiluna í Palestínu, um ofbeldið og hatrið, friðarferlið og alls konar lausnir. Röksemdarfærslan hefur oftast verið annaðhvort/eða, sem er sams konar lausn og finna má í Mósebókum ritningarinnar. Auga fyrir auga, tönn fyrir tönn, fót fyrir fót, skeinu fyrir skeinu en þessari aðferð fylgir einnig líf fyrir líf og þá væntanlega barn fyrir barn og jafnvel börn fyrir hvert dáið barn. Þetta er aðferðin sem virðist fylgt, við höfnum henni.
Sjötta afhjúpun um börnin
Börnin spyrja ekki: Hver byrjaði? Hver sprengdi moskuna, kirkjuna, sýnagóguna, sjúkrahúsið, hverfið mitt, húsið mitt?
Þau vísa ekki í alþjóðlegar reglugerðir um hvenær megi drepa í stríði og hvenær ekki og hvort einhver hafi rétt til að verja sig með því að drepa þau. Þau beita ekki klækjabrögðum.
Þau vilja bara fá að vera í friði fyrir átökum, stríði, deilum, flækjum og spilltum valdakörlum.
Börn falla ekki fyrir hugtökum eins og „mannúðlegur hernaður“ sem felst í því: að upplýst er daginn áður að sprengju verði varpað á bygginguna sem þau búa í, að þau hafi tíma til að yfirgefa hverfið sitt, sjúkrahúsið, skólann eða norðurhlutann til að flýja yfir í suðurhlutann og ganga þar inn í flóttamannabúðir án allra nauðsynja, án alls, og eru svelt til dauða.
Ofbeldið og hefndin hafa tekið nógu mörg börn frá okkur. Ofbeldi er aldrei réttlætanlegt. Hvorki hjá þeim sem gerir árás né þeim sem gerir gagnárás. Það er sannleikurinn. Ofbeldi skapar og kveikir elda haturs sem breiðast hratt út eins og sinueldur. Afl ófriðar er græðgi, heimska, kúgun, illska og hatur. Afl friðar er jöfnuður og gjafmildi, stefnum þangað.
Valdafólk sem tekur og traðkar á öðrum skapar vítahring haturs og ófriðar. Valdafólk sem aðhyllist aðskilnaðarstefnu girnist yfirleitt land og auðævi annarra með landtöku og hernámi. Öll aðgreining og mismunun stafar af mannavöldum og hvílir á fordómum, græðgi og drottnunargirni. Hversu oft þurfum við að segja þetta?:
„Við öll erum jafnborin til virðingar og réttinda sem eru undirstaða frelsis, réttlætis og friðar í heiminum.“ Tökum undir með UNICEF: Börn þurfa VERND og VOPNAHLÉ. STRAX!
Hvar sem mannshjartað slær, hversu illa sem lífið leikur það, er eitt sem það vill forðast: ofbeldi. Þessi ósk hefur þrátt fyrir allt búið í hjarta mannkyns frá ómunatíð. Takið ykkur stöðu og sýnið samstöðu. Andspyrna er knúin áfram af mótmælum, ekki ofbeldi. Við stöndum hér og mótmælum stríði, ofbeldi og drápi á börnum.
Við horfum til friðarmenningar.
Fimm ráð friðarmenningar eru einföld gjöf:
1. Mótmælið öll!
2. Ræktið vinsemd.
3. Sýnið kærleika.
4. Særið engan.
5. Réttið hjálparhönd.
Sjöunda afhjúpun um frið og réttlæti
Við stöndum hér í nafni friðar og réttlætis. Sextánda heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna er friður og réttlæti: Að stuðla að friðsælum og sjálfbærum samfélögum fyrir alla jarðarbúa, tryggja öllum jafnan aðgang að réttarkerfi og byggja upp skilvirkar og ábyrgar stofnanir á öllum sviðum. Öll börn jarðar eiga rétt til friðar og óspillts umhverfis. Við vitum að það er satt, við vitum hver sannleikurinn er.
Stöndum með börnunum, ekki með spilltu valdakörlunum – biðjum heimsbyggðina að hætta að hlusta á þá! Skyldan er við börnin, friðinn og réttlætið.
Ég spurði: Getur það verið að bak við grimmdarverk í sögunni, grimmdarverk eins og þjóðarmorð standi oftast valdamenn og valdamikil stjórnvöld sem þyrstir í land og auð? Já, það er líkleg tilgáta. Valdafólk – við sjáum ykkur, við sjáum í gegnum ykkur!
Þetta voru aðeins sjö afhjúpanir í dag á hugarfari og misferli. Höldum áfram að greina og svipta hulunni af andliti grimmdarinnar.
Við neitum að standa á hliðarlínunni meðan að Ísrael fremur þjóðarmorð. Sýnum samstöðu okkar og krefjumst þess að blóðbaðinu linni. Almenningur vill frið og réttlæti!
Lifi Frjáls Palestína! Hlustum á börnin!
Börn þurfa VERND og VOPNAHLÉ. STRAX!
PS. Ísraelsher drap 18 börn í nótt, nóttina 21. apríl.