Svei attan og fussum fey
Á einum stað í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls bankanna 2008 er vitnað í mig um hugrekki og umræðuhefð Íslendinga:
„Það er líkt og hugrekki þurfi til að taka þátt í lýðræðislegri umræðu á Íslandi“.
Grunur læðist að mér að svo sé aftur, núna í maí 2024.
Greina má umræðustíl í landinu sem einkennist af því að láta andstæðinginn fá það óþvegið. Þetta má kalla tilbrigði við ofbeldi. Hvers vegna viðgengst kúgun í umræðu og hvað er til ráða?
Af einhverjum ástæðum, felst sterk hefð í opinberri umræðu í því að hrakyrða þann aðila sem sjónum er beint að, hvort sem um er að ræða hópa eða einstaklinga eða þá stofnanir, fyrirtæki, landshluta eða aðrar þjóðir.
Ekki er hægt að merkja lifandi áhuga á að flokka umræðu eftir efnisflokkum eða tegundum raka til að komast til botns í málunum. Ekki er heldur vel hægt að greina tiltrú á að gild rök geti notið virðingar, fremur má sjá trú á að ofbeldi í umræðu sé vænlegt til vinnings. Fólk lætur gjarnan ófriðlega og þung högg falla.
Svo virðist sem aðilar séu alls ekki að tala saman heldur hafi meiri áhuga á að skamma hver annan sem mest, hæðast að og grafa undan. Sleggjudómar njóta sérstakrar hylli í umræðunni í stað þess að hlusta og finna málamiðlun. Kannski mætti kalla þennan íslenska stíl: svei attan og fussum fey.
Er gott að æpa á fólk?
Mælskulist, hræðsluáróður og þrjóska eru háttskrifuð þrenna en gagnrýnin hugsun minna metin í umræðu eða úrvinnsla gagna. Þetta hefur auðvitað lengi verið vitað en vonir stóðu alltaf til að þetta gæti breyst með tíð og tíma.
Það er mannleg skylda og aðdáunarvert að leggja sig í framkróka við að öðlast réttar skoðanir og leita að góðum og gildum rökum fyrir þeim. Það er aftur á móti meira en ósiður að þylja yfir hausamótunum á öðrum eða hella sér yfir þá til að hrekja í burtu. Það er alls ekki skylda að sannfæra aðra eða sigra í umræðu – eins og ætla mætti af umræðustílnum. Það er ekki nauðsynlegt að eiga síðasta orðið, það líkist kúgun og útilokun.
Hversu margir veigra sér við að taka þátt í umræðu af þessu tagi? Sennilega tapast mörg sjónarmið vegna þess að of margir hætta við að taka til máls innan um umræðuböðlana. Hvert svar kostar nýja árás.
Ofbeldið í umræðunni viðgengst of léttilega. Einn veitir ádrepu. Honum er svarað fullum hálsi en hann hlustar ekki og segir skoðun sína bara aftur og nú með því að æpa.
Hvernig má breyta umræðustílnum?
Of margir virðast spana áfram af þrjósku og fordómum og slá gjarnan vandarhöggin. Of fáir nenna að bíða eftir niðurstöðu eða sönnunargögnum úr vel ígrundaðri umhugsun. Gildar skoðanir þarfnast óhjákvæmilega rökræðu og aðferðin til að öðlast bærilega réttar skoðanir er að beita gagnrýninni hugsun. Það er ekki farsælt að taka ákvarðanir byggðar á kúgun og hótunum. Þýðingarmikil skoðun þarf alltaf að standast prófin.
Það er jafn niðurdrepandi að fella sleggjudóma og það er gefandi að skiptast á fullgildum skoðunum við aðra. Hægt er að grafa undan skoðunum annarra til dæmis með því að setja þær í háskalegt samhengi og tengja við persónur við annarleg sjónarmið.
Það er alrangt að afgreiða mál með því að ausa óhróðri yfir aðra og gefa þeim ekki færi á að svara eða hrekja þá burtu með taumlausum lygum. Samt verðum við reglulega vitni að þessum hættulega umræðustíl.
Aðrar og mildari aðferðir
Vonandi eru flestallir orðnir dauðleiðir á þessum tiltekna íslenska Svei-attan-umræðustíl og verkefnið fram undan augljóst. Hætta þarf ákveðnum þáttum eða forðast þá, eins og skammir, ávítur, að taka einhvern til bæna, hella sér yfir, segja öðrum til siðanna, ausa úr sér hrakyrðum, sneypa aðra og ráðast á þá persónulega – eins og tíðkast, eins og leyfist.
Átakamenningin í íslenskri umræðu virkar skjótt eins og refsing og það eru sterkar líkur á því að margir forði sér af vettvangi. Þessi stíll flokkast ótvírætt undir ofbeldi sem beina mætti sjónum að og uppræta.
Aðrar og mildari aðferðir í íslenskri menningu hafa þó víða leyst ósvífnina og hörkuna af hólmi eins og í uppeldi barna, í skólum, á vinnustöðum og samskipti almennt orðið vinsamlegri en áður.
Almenningur eða fólk, hlustendur, lesendur, áhorfendur, við öll, getum brugðist við með ýmsum hætti. Við gætum forðað okkur á hlaupum, hætt að hlusta og taka þátt, snúið okkur að einhverju öðru uppbyggilegu. Gallinn við þessa aðferð er að hinir bíræfnu öðlast þá of mikið vægi og rými.
Við gætum líka lært að gera kröfur og knúið á um gild rök og gögn, hafnað upphrópunum og æft okkur í því að hlusta, greina, spyrja og tala af yfirvegun án þess að hnýta í aðra. Það þarf þjálfun í að sigta út ofbeldið í umræðunni og hugrekki til að hafna því.
Getur vinsemd bjargað einhverju?
Ef það er á annað borð verið að skiptast á skoðunum þá er afleitt að mæta hroka og viðskotaillum (and)svörum, hófsemd er miklu líklegri til vinnings ef hún finnst í „vopnabúrinu“. Hófsemd er að vísu ekki hátt skrifuð í íslenskri umræðu – en gæti hún verið svarið?
Hófsemd eða vinsemd í umræðu felst í því að láta hvorki persónu sína né annarra, eða stöðu þvælast fyrir sér. Hugarfarið snýst ekki um að sigra eða verjast heldur einfaldlega í því að finna svar. Slíkt svar fæst alls ekki með því að ausa skömmum yfir aðra eða sverta mannorð þeirra.
Vinsemd býður ekki upp á árásargirni, ofbeldi eða skammir í umræðunni. Hún býður upp á viðfangsefni og gögn sem gagnrýnin hugsun greinir, vegur og metur, tekur í sundur og setur saman aftur til að sjá trúverðuga mynd.
Vinsemd sem aðferð í umræðu
Skilgreina má vinsemd sem jafnlyndi og skynsemi í umræðu sem tekur mið af almannahagsmunum. Persóna sem tileinkar sér vinsemd í umræðu einkennist af nokkrum þáttum:
Hún gerir ráð fyrir að hafa mögulega rangt fyrir sér. Hún tekur mótrökum ekki persónulega. Hún lítur ekki á aðra sem andstæðinga heldur jafningja. Hún talar ekki aðra í kaf því hún býst við því að aðrir virði hana sjálfa sem persónu.
Fleiri kosti vinsemdar má nefna: að hlusta af athygli, taka vel eftir og að geta skipt um skoðun og að fá aðra til að skipta um skoðun án þess að það verði óþægilegt eða þvingandi.
Það á að vera gefandi og hvetjandi að taka þátt í opinni umræðu.
Út með ótta og ofbeldi, inn með vinsemd!