Að hætta að drekka áfengi
Við áramót er vinsælt að stíga á stokk og strengja þess heit að hætta einhverju eða byrja á einhverju. Hér er pistill handa þeim sem langar til að hætta að drekka áfengi en það er enginn skortur á ástæðum og rökum fyrir slíkri ákvörðun. Alkóhól er ávanabindandi efni og neyslan er samofin samskiptum í samfélaginu, það telst því töluverð áskorun að hætta að neyta þess.
Vissir þú að
áfengisnotkun er aðalorsök ótímabærs dauða og sjúkdómabyrði meðal fólks á aldrinum 15-50 ára.
35% Íslendinga drekka áfengi í hverri viku.
fjórðungur Íslendinga hefur tileinkað sér skaðlegt neyslumynstur áfengis.
25% karla og 20% kvenna hafa ánetjast áhættudrykkju.
ölvunardrykkja (5 glös+) jókst árið 2021 bæði hjá konum og körlum.
áfengisneysla er í fimmta sæti á lista 25 áhættuþátta dauðsfalla og sjúkdóma.
aukið aðgengi að áfengi á Íslandi hefur stóraukið sölu áfengis eða úr 4,5 árið 1988 í 7,5 lítra á kjaft árið 2021.
allar stjórnvaldsaðgerðir sem auka aðgengi að áfengi eru til þess fallnar að vinna gegn settum lýðheilsumarkmiðum og auka þar með á skaðleg áhrif og afleiðingar áfengisdrykkju.
jákvæðar greinar og rannsóknir í fjölmiðlum um að hófdrykkja sé góð fyrir heilsuna er iðulega keypt umfjöllun af hagsmunaaðilum.
hófdrykkja merkir alls ekki það sama og heilsusamleg drykkja, jafnvel þótt eitt glas af víni hafi mælanlega engin áhrif á hjartað þá hefur eykur það líkur á krabbameini.
það er einkum þrennt sem leiðir til þess að áfengi veldur svo miklu líkamlegu, andlegu og félagslegu tjóni; eitrun í líkamanum, víma, ánetjun (fíkn).
skaðleg áhrif alkóhóls eru til dæmis eitrun í heila vegna lifrarskemmda, skemmdir á litla heila, geðtruflanir, svefntruflanir, taugaskemmdir, aukin hætta á krabbameini í meltingarvegi, fitulifur, skorpulifur, briskirtilsbólga, hjartsláttartruflanir, skemmdir á hjartavöðvar, uppsöfnun fitu í lifrinni, beinþynning, auknar líkur á heilablóðfalli.
áfengisdrykkja skemmir lifrarvefinn, lifrin nýtir þá alkóhól sem orkuefni í staðin fyrir fitu og þá myndast svokölluð fitulifur.
etanól er eldfimt, litarlaust og eitrað lífrænt efnasamband, öðru nafni nefnt alkóhól og táknað með efnajöfnunni C2H5OH.
áfengi dregur úr svefngæðum, deyfir dómgreind, dreifir eiturefnum um líkamann, truflar minnið, dregur úr dugnaði, deyfir framheila og sköpunargáfuna.
líkaminn varar við áfengi með uppköstum, ógleði og með því að eyðileggja morgundaginn.
áfengi rænir frá þér vinum, vinnuframlagi, leggur fjölskyldur í rúst og eykur tíðni ofbeldis.
að finna á sér hefur alltaf neikvæð áhrif á heilsuna, óháð aldri og kyni.
að áfengisgjöld í Evrópu eru langhæst á Íslandi, gjöldin á léttvín voru 584% yfir meðaltali árið 2021 (óskynsamleg kaup). Áfengisgjöld af hálfum lítra af hefðbundnum bjór hækkuðu á Íslandi um áramótin 22-23 um 16 krónur, fóru úr 201 krónu í 217.
að áfengi er mjög hættulegur og skaðlegur vímugjafi í óhófi og fylgir bæði ofbeldi og síðan mikil andleg vanlíðan. Fleiri leituðu á bráðamóttökuna sökum áfengisvandamála en vegna flugeldaslysa áramótin 22-23. (RÚV).
Viltu vita meira?
Vínlaus lífsstíll eykur lífsgæðin, bætir svefn, orku og samskipti. Athyglisgáfan og einbeitingin batnar og áhuginn á velferð annarra vex.
Hvað þarf til?
Ákvörðun um frelsi, sjálfsaga, hugrekki til að standast hópþrýsting og að finna leiðir til að fara á mis við freistinguna. Þekking er mikilvæg í þessum efnum.
Hvaða þrep þarf að stíga?
Taka ákvörðun - skipta um skoðun.
Öðlast þekkingu - trúa staðreyndum.
Hafa trú á að þú getir staðið við þetta áramótaheit!
Hvers vegna að standa í þessu?
Fyrir heilsuna, vellíðan, börnin, sparnaðinn, heilann, hugann, hjartað og til að ánetjast ekki áfengi sem er getur breytt neytanda í fíkil. Síðast ekki síst fyrir sjálfan sig og samfélagið.
Vínlaus lífsstíll er ljúfur
Það er engin ástæða til að vera utanveltu í mannfagnaði. Þau sem tileinka sér vínlausan lífsstíl velja sér öll fallegu glösin sem eru undir freyðivín, rauðvín og hvítvín og fylla þau með kolsýrðu vatni. Vínlaus pör kveikja á kertum og skála í slíkum glösum yfir áfangasigrum.
Hvernig mun ganga?
Áramótaheitið að hætta að drekka áfengi er auðvitað töluverð áskorun í samfélagi þar sem hvarvetna er boðið upp á vín og aðgengi er eins gott og það er. Edrú í janúar er ágætt markmið, ársfjórðungur er flott markmið, hálft ár, heilt ár. Alkóhól er ávanabindandi efni og af þeim sökum er best að hætta til lífstíðar. Mánuður er samt ágæt æfing og byrjun.
Gangi ykkur vel á nýju ári
p.s. Bókin Vending - vínlaus lífsstíll kemur út fyrir miðjan janúar 2024.
p.p.s. Manneskja sem þiggur ekki vínglas í boðum þarf oft að útskýra hvers vegna svo sé. Er hún á bíl? Er hún óvirkur alki? Er hún hætt að drekka áfengi vegna þess að hún býr yfir veikleika? Hvers vegna vill hún ekki drekka með okkur? Hvað er að HENNI?
p.p.p.s. Á Íslandi eru nú 22% líkur fyrir karla og 10 % líkur fyrir konur að verða vímuefnafíklar einhvern tíma á ævinni og í 80 % tilvika er vímuefnaröskunin fyrst og fremst áfengissýki.
p.p.p.p.s. Á 45 mín. frestir deyr einhver í bílaumferðinni í Bandaríkjunum fyrir tilstuðlan drukkins bílstjóra.