Lífhverf viðhorf og hvalveiðar
Langreyður er næststærst allra hvala, einungis steypireyður er stærri og um leið næststærsta dýr jarðarinnar. Hún er fullvaxin 22 til 23 m á lengd og vegur þá 60 til 70 tonn. Langreyður er á lista IUCN yfir dýr í útrýmingarhættu. Öllum má vera ljóst að stórfelld brot á velferð dýra áttu sér stað við veiðar Hvals hf árið 2022.
Mannhverf (anthropocentric) viðhorf setja manninn í öndvegi, velferð hans og öryggi. Slík viðhorf eru hefðbundin í mannkynssögunni og hafa komið jarðlífinu í alvarlega stöðu. Til er önnur nútímalegri afstaða sem nefnist lífhverf viðhorf (biocentric) sem setja velferð dýra og lifandi vera í öndvegi, ekki veitir af því maðurinn hefur orðið valdur að útrýmingu þeirra en í dag er talið að allt að ein milljón dýra- og plöntutegunda sé á barmi útrýmingar. „Mannhverf hugsun, vélhyggja og almennt sinnuleysi er enn ríkjandi. Við þurfum að laga þetta og hverfa til visthverfari gilda áður en sjötta útrýmingarbylgjan ríður yfir okkur af fullum þunga og náttúran deyr, líkt og állinn,“ skrifaði Snorri Baldursson 2021 en visthverf (ecocentric) viðhorf hafa megináherslu á heilbrigða náttúru, þar sem vistkerfum er ekki raskað.
Hvort vegur þyngra?
Fagráði um velferð dýra lýsti því yfir í sumar að miklir ágallar væru á veiðum á stórhvelum við Ísland sumarið 2022. Taldi ráðið að við veiðar á stórhvelum á Íslandi væri ekki hægt að uppfylla þau skilyrði sem nauðsynleg eru til að tryggja velferð dýra við aflífun. Niðurstaða ráðsins er að sú veiðiaðferð sem beitt er við veiðar á stórhvelum samrýmist ekki ákvæðum laga nr. 55/2013 um velferð dýra. En um þriðjungur þeirra hvala sem veiddir voru á vertíð 2022 háðu langt dauðastríð. Veiðarnar voru svo gallaðar að nauðsynlegt þótti að setja nýja og ítarlega reglugerð um veiðar á langreyðum með eftirliti.
Við þurfum alltaf að vega og meta, hvort vegur þyngra þegar tvennt stangast á, er það velferð næststærsta dýrs í heimi eða eru hagsmunir eiganda báts á stöðugri siglingu, þar sem það tekur langan tíma að hlaða byssuna aftur til að hitta gera hvalkálf móðurlausan?
Skyldan að valda dýrum sem minnstum sársauka
Í lögum um dýravernd stendur: Ávallt skal staðið að veiðum þannig að það valdi dýrunum sem minnstum sársauka og aflífun þeirra taki sem skemmstan tíma. Skylt er veiðimönnum að gera það sem í þeirra valdi stendur til að aflífa þau dýr sem þeir hafa valdið áverkum.
Við veiðar er óheimilt að beita aðferðum sem valda dýri óþarfa limlestingum eða kvölum. Við veiðar á villtum dýrum skal að auki fara að fyrirmælum gildandi laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.
Eldri grein Gunnars í Heimildinni: Tilfinningamál fyrir langreyður
Meðalhóf í dýraníði eftir Andrés Skúlason
Teikning/Jón Baldur Hlíðberg