Nýársbók: Vending – vínlaus lífsstíll
Ég skrifaði bókina Vending fyrir þau sem vilja læra og tileinka sér vínlausan lífsstíl. Hún kom út 12. janúar 2024 eftir jólabókaflóðið og fékk strax góðar viðtökur. Þetta er nýársbók sem opnast eftir aðventu, jól og áramót sem kærkomin byrjun á nýju ári og nýjum lífsstíl. Bókin á erindi við lesendur sína í upphafi árs.
Bókin er fyrir þau sem vilja bæta heilsuna og ryðja hindrunum úr vegi, fyrir þau sem vilja stíga á stokk og strengja þess heit að læra vínlausan lífsstíl á árinu. Hví ekki?
Ég hafði sjálfur tileinkað mér þennan lífsstíl og skrifað greinar til að mæla með honum. Eftir að hafa lært um þetta efni alkóhól, lesið, hlustað og greint félagsleg áhrif þess skrifaði ég bókina og gerði slagorðið „Skýr hugur, skapandi hjarta og hraustur heili“ að undirtitli til að lýsa kostunum.
Viltu æfa nýjan lífsstíl á árinu?
Lífið er tilraun sem ekki verður endurtekin. Hún stendur yfir í rauntíma, því ekki að gefa vínlausum lífsstíl tíma – hvað með einn, tvo eða þrjá mánuði? Það ætti að vera auðvelt. Hver er fórnin?
Breyting felst aldrei einungis í einu verkefni, því það er svo margt sem fylgir. Tækifæri gefst í leiðinni til að endurmóta valda þætti í eigin lífi, efla kosti og demba ókosti, bæta sjálfsskilning og blómstra.
Aðalaflvaki minn var:
Gjöfin – sem býr innra með hverjum og einum. Gjöfin veltur á áhugasviði, hæfileikum og ástríðu hvers og eins, og veljast verkfæri og aðferðir eftir því. Hver er hún?
Verkefnið – að gefa því verki sem við viljum vinna fullan kraft, tíma og einbeitni til að ná markmiðum sínum. Hvert er verkefnið?
Það er gott ráð að prófa vínlausan lífsstíl og kanna hvort hann bæti lífið. Bókin er skrifuð fyrir þau sem vantar vendipunkt, kraft og lífsgildi til að taka skrefið: að venda kvæði sínu í kross.
Nýjar lífsreglur og breyttur lífsstíll
Hvernig skal byrja á nýjum lífsstíl? Hvað þarf til? Viljastyrk, þekkingu, ákvörðun, frelsi og aga? Að taka ákvörðun, trúa staðreyndum, öðlast þekkingu, jafnvægi og einsetja sér að missa áhugann á áfengi og breytast í heillavænlega átt án þvingunar.
{… allt er þetta eitthvað sem er innan seilingar …}
Nýjum lífsreglum og breyttum lífsstíl fylgir betri/meiri; svefn, sköpun, tími, umhyggja, gáfa, agi, iðja, örlæti, auðmýkt, einlægni, kærleikur, hjarta, gleði.
Að undirbúa líkama og sál fyrir ummyndun hugarfarsins, það er lykilatriði, því aðstæður, veikleikar og styrkleikar munu takast á.
Ég verð ekki hamingjusamur nema ég geri það sem ég ætti að gera – að koma ógerða verkinu mínu vel áleiðis, gefa mér tíma og leggja aðlúð í verk
Samkvæmt því þarf ég að finna gjöfina sem býr innra með mér, rækta hana og gefa hana öðrum.
Til að svo geti orðið, þarf oft að venda kvæði sínu í kross, skipta um lífsstíl, dempa veikleika og efla styrkleika.
Áfengi er of mikil áhætta, það truflar, tefur og afvegaleiðir. Hugur og hönd þurfa kjöraðstæður til að vinna verkin vel. Fíknin í áfengi breytir efnafræðinni í heilanum og dregur síðan hratt úr vellíðan.
Ef þú finnur fjársjóð …
Hamingjan er nátengd heilsu. Hún breiðist út þegar við verðum heil til lengri tíma. Hún felur í sér hugarró, sátt, nægjusemi og aga til að takast á við ókosti og veikleika sem búa í okkur.
Það er ekki nóg að strita. Jarðvegurinn þarf að vera fyrir hendi, gróðurmoldin.
Það verða alltaf átök, baráttan snýst um að hemja „andstæðinginn“ og virkja sálargáfuna. Andstæðingurinn er falinn í okkar eigin veikleikum.
Eftir að hafa vikið því burt sem var okkur fjötur um fót, losnar eitthvað úr læðingi og við förum á flug.
Hver er þín köllun?
Köllun er áköf þörf, hlutverk sem hægt er að gefa sér, oftast þurfum við sjálf að gefa okkur þetta hlutverk – þess vegna þurfum við að finna gjöfina.
Ef þú finnur fjársjóð innra með þér, gefðu af honum!
Til að geta hætt endanlega að næra veikleika sína: þarf að sjá þá í réttu ljósi og snúa sér að styrkleikunum.
Áfengi er eins og þoka, skyggnið versnar í huganum og við verðum reikul í spori.
Sköpunargáfan þarf á vel smurðum og hraustum heila að halda, heilahvelum sem mynda jafnvægi.
Þurr janúar og Edrúar styðja vínlausan lífsstíl
Hvernig er best að byrja? Taka einn mánuð í einu.
Við erum svo heppin að fyrsti mánuður ársins nefnist Þurr janúar eða (Dry January, verkefni sem hófst 2014 í Bretlandi). Á Íslandi standa IOGT, FRÆ og Krabbameinsfélag höfuðborgarsvæðisins fyrir Þurrum janúar.
Strax á eftir tekur Edrúar við sem leysir febrúar af hólmi. Á hverju ári stendur Akkúrat fyrir Edrúar áskorun sem er ætlað að beina athygli fólks að kostum þess að breyta venjum með áfengislausum valkostum. SÁÁ hvetur svo landsmenn til þess að prófa Edrú lífstíl í febrúar,
Þá er kjörið að lesa bókina Vending – vínlaus lífsstíll. Hún fæst í helstu bókabúðum hjá Eymundsyni, Forlaginu, Sölku, Bókakaffinu, Skáldu … Einnig er hægt að panta hana á lifsgildin.is og fá hana senda í pósti.
Farsæl leið til að lifa og verða hamingjusöm
Að breyta sjálfum sér felst í frelsun frá því sem truflar okkar. Þessi viðleitni gefur kraftinn til að vinna verkið sem gjöfin opinberar.
Ótal margt er mikilvægt í þessu ferli, eitt af því er biðlund. Við bíðum, látum þörfina líða hjá, yfirbugum þörfina og veljum eitthvað annað sem gleður. Við leggjum ekki árar í bát til að hvíla ögn lengur í fíkninni.
Hver er þín gjöf? Hvað þarf til að opna hana og gefa af henni?
Við verðum að gefa öðrum, það er farsæl leið til að lifa og verða hamingjusöm.
Þessi bók, Vending, er heimspekileg nálgun að því verkefni að breyta sjálfum sér. Þetta er spennandi og þroskandi verkefni þar sem einstaklingurinn sjálfur tekur þátt í því að þróa lausnina sem hentar, án þess að tala annað niður. Hugtökin eru opin og veita tækifæri til að sækjast eftir því sem við viljum og forðast það sem við viljum ekki.
Verkefnið og valið „að lifa án áfengis“ er hægfara umbreyting, ekki skyndileg hamskipti. Fólk þarf að máta sig í þessum sporum, því vínlaus lífsstíll hefur áhrif á líkama og sál og félagsleg samskipti.
Að vilja er auðvelt en það dugar ekki alla leið ef getuna skortir. Það er ekki fyrr en við losnum sem tækifæri fyrir aðrar sálargáfur opnast og tími gefst til að vinna verkin sem við viljum vinna vel og vandlega, og miðla þeim til annarra.
Gangi ykkur vel að finna ykkar vendipunkt og útfæra snúninginn.
Það er jafnspennandi verkefni að hætta einhverju gömlu og að byrja á nýju. Að hætta einu merkir að byrja á einhverju öðru. Það opnar nýja vídd í tilveruna.
Gleðilegt nýár!
Ljósmynd: Styrmir & Heiðdís.
p.s. Viltu vita meira eða vantar þig ástæður? Sendu póst: lifsgildin@gmail.com. Kíktu á þessa greinar: