Þversögnin holdi klædd
Hin hliðin á kápu bókarinnar Óljós birtir ekki lýsingu á efninu heldur skoðun söguhetjunnar Leifs á smásögu eftir fræðikonu sem oft er vitnað í. Það er hluti af skemmtilegri fléttu í þessari skáldsögu höfundar og ráðgátunni um prófessor Leif:
Þetta er saga sem var skrifuð til þess að hún yrði ekki birt og myndi gleymast. Enginn átti nokkru sinni að lesa hana. Eiginlegur tilgangur sögunnar var einmitt sá að koma ekki fyrir sjónir lesenda. Hún dregur fram í sviðsljósið það sem við höfum öll ímugust á: hversdagsleikann, merkingarleysið, átakanleika þess að vera hugsandi manneskja í veröld án ramma, án stefnu, án markmiðs (káputexti).
Óljós – saga af ástum eftir Geir Sigurðsson heimspeking er skemmtileg lesning og forvitnileg. Ég fagna skáldverkum eftir heimspekinga enda góðar fyrirmyndir á þeim vettvangi eins og hin frönsku sanna: Sartre, Camus og Beauvoir.
Í hnotskurn:
Hugvitssamlega samin skáldsaga sem vekur margskonar hugrenningartengsl og hún vekur líka undrun. Það er góður húmor í textanum og skemmtilegt að lesa hana og pæla út frá ýmsum þáttum.
Hversdagsleikinn í aðalhlutverki
Ég ætla ekki að leysa ráðgátuna um Leif fyrir aðra og ekki að fjalla um söguþráð bókarinnar heldur fremur um það hvert hugur lesandans leitar. Höfundurinn nær að tengja við margar hugmyndir sem vert er að skoða og mikilvæga þætti í lífinu eins og tengsl og samskipti. Það væri gaman að gefa sér tíma til að skrifa lærða grein um bókina, en hvar gæti hún birst? Svo ég vísi í söguhetjuna sem fékk ekki birta fræðigrein um Eleonore Niemand sem næstum enginn þekkir. Ég læt því fyrst um sinn nægja að segja snögglega frá helstu hughrifum – þótt verkið eigi meira skilið en það.
Hversdagsleikinn er í aðalhlutverki í bókinni Óljós og meint merkingarleysi hans. Sagan snertir ótal margt í hinu daglega lífi, meðal annars hvernig aldur er metinn á ólíkan hátt eftir samfélögum. En á Íslandi eru skoðanir stundum gerðar léttvægar með því að vísa til aldurs þess sem hefur myndað sér hana – svo dæmi sé tekið.
Þversögn hins mannlega lífs
Höfundur leikur sér með ýmsar kenningar, bæði í bókmenntafræði og heimspeki og gerir það með húmor að vopni til að lýsa meðal annars hvernig samskipti og ráðningar á vinnustöðum eru oft um of bundin hefðum, óskráðum reglum og tískubólum. Eða hvernig samskipti í fjölskyldum eru oft á tíðum föst í einhverjum viðjum í margar kynslóðir – án þess að neinn óski þess og án þess að talað sé um það.
Geir skapar, sér til aðstoðar, heimspekinginn Niemand sem hefur haft áhrif á síðmódernískar bókmenntir. Söguhetjan sjálf er háskólakennari sem margir bíða eftir að fari á eftirlaun og sumir telja vera risaeðlu í karlrembulíki.
Niemand og Leifur eru sammála um að þversögn hins mannlega lífs sé þessi:
að hin eina hugsanlega lífshamingja sé fólgin í því að gleyma sjálfum sér við hvers kyns störf, hversu ómerkileg sem þau kunni að vera, að slökkva þannig á sjálfsmynd sinni og hætta að vera til sem vitund í tíma (bls. 77).
Þetta er auðvitað rétt því fátt er mikilvægara en finna sér stað í tilverunni, þar sem hæfileikarnir nýtast og gefa sér tíma til að sinna því af alúð. Vel uppbyggt sjálf gleymir sér þar við þá iðju. Vestræna sjálfið er einstakt en kínverska sjálfið verður til í samfloti og tengslum við aðra.
Hvað sem því líður þurfum við að gera eitthvað einstakt með því að skapa eitthvað, skrifa bók, jafnvel grein um bók eða semja lag eða …
Okkur tekst best upp þegar við gleymum okkur.
Markmiðið er ekki að verða frægur eða ríkur heldur að lifa fullnægjandi lífi. Söguhetjan Leifur naust sín ekki til fulls, hvorki í vinnu né í fjölskyldunni. Hann er fyrirsjáanlegur og meðvirkur en ákveður að gera tilraun eftir starfslok og flytur til Kína og við ferðumst með honum þangað.
„Hún skrifaði þetta til að fela það“
Geir vekur spurningar um dauðann, ástina, tómið, minningar og tilgang. Það eru margir kaflar í bókinni sem gefa tilefni til íhugunar og samræðu, til dæmis um gildi minninga.
Þegar enginn minnist mín lengur er ég ekki lengur neitt, þá er ég enginn (80).
Samband Leifs við burtkallaða eiginkonu sína fer fram í gegnum bókina alla. Henni bregður jafnvel fyrir í mannþrönginni í borgum Kína. Hann hugsar um hana, talar við hana og öðlast aðra sýn á samband þeirra en áður.
Í bókinni leyfir höfundur sér líka að gera góðlátlegt grín að bókmenntafræði:
Greinin um kynvitundina í Don Kíkóta er alveg stórkostleg, algjörlega á heimsmælikvarða (89).
Þá er skopast að heimspeki, til dæmis stóuspeki og daoisma. Tilfinningalegt jafnvægi er þar í öndvegi eða að gleðjast ekki um of, ekki fagna of mikið og ekki hryggjast, það er línan. Geir skrifar:
Ekki kætast um of, allt getur breyst (110).
Þetta er eitt af þeim boðorðum sem söguhetja tekur alvarlega - en hvort það var gáfulegt er annað mál.
Bókin Óljós geymir margar hugmyndir, fullyrðingar og tilgátur og eflaust tilvísanir sem ég hef ekki komið auga á. Geir kallast á við alls konar þekktar og minna þekktar fullyrðingar um lífið og gerir það oft í nafni Niemand:
Uppfylling lífsins – það sem við leitum að allt lífið – fæst ekki fyrr en hugsanlega á andartakinu þegar við gefum upp öndina. Og þá er alltént of seint að tjá það öðrum (129).
Þetta er líklega rétt.
Mér fannst gaman að lesa þessa bók, hún er vel ofin. En þversögnin er að skrifa um það sem átti að vera falið, það sem er óljóst. Hann skrifar bersýnilega um það sem við tökum sjaldnast eftir: hið augljósa sem fer fram hjá flestum. Sjálfur bjóst hann kannski ekki við að skrifa skáldsögu, hvað þá að gefa hana út.
Niemand skrifar smásögu sem átti ekki að koma fyrir augu lesenda og Leifur ályktar:
Hún skrifaði þetta til að fela það (142).
Takk fyrir Geir, fyrir að gefa út bókina og leyfa okkur að lesa.
Geir Sigurðsson er prófessor í kínverskum fræðum og þvermenningarlegri heimspeki við Háskóla Íslands. Hann hefur skrifað bækur á sínu fræðasviði og fjölmargar ritrýndar greinar.
Óljós – saga af ástum
Geir Sigurðsson, 2024, 194 blaðsíður*
Bókaútgáfan Sæmundur