Er öllu afmörkuð stund? II
Í dag sat ég við skriftir, fór í leikfimi, tók kosningapróf á RÚV en las einnig umsögn Gauta Kristmannssonar um bókina Rúmmálsreikningur II eftir Solveg Balle, bók sem ég var sjálfur að lesa og nú að skrifa um. Það er gefandi að lesa þetta verk sem knýr lesandann til að endurhugsa tímahugtakið og til að sjá eigið líf í öðru ljósi.
#323. dagur ársins 2024
Átjándi nóvember er runninn upp í mínu lífi, það er mánudagur og eins og ávallt er öllu afmörkuð stund og enn spyr Predikarinn:
Hvaða gagn hefur maðurinn af öllu erfiði sínu sem hann streitist við undir sólinni? (Pred. 1.3).
Líf Töru Selter er frábrugðið lífi annarra.
Það sem hefur verið mun verða og það sem gerst hefur mun enn gerast og ekkert er nýtt undir sólinni (Pred. 1.9).
Ég skrifaði þanka um Rúmmálsreikning I og heitir hann: Er öllu afmörkuð stund? Nýja bókin hjá Benedikt bókaútgáfa kom út á þessu ári, 2024 og er einnig í afbragðsgóðri þýðingu Steinunnar Stefánsdóttur. Bók tvö knúði mig til að hugsa um tímahugtakið áfram, endurminninguna, endurtekninguna og lífið og dauðann.
#331. dagur ársins 2024
Viðhorf til tímans er breytilegt eftir sjónarhorni, aldri, reynslu og menntun. Blaðamenn horfa á heiminn frá degi til dags, sagnfræðingar frá öld til aldar og fornleifafræðingar mæla tímann í jarðlögum.
Öllu er afmörkuð stund og sérhver hlutur undir himninum hefur sinn tíma eins og Predikarinn fullyrðir réttilega:
Að fæðast hefur sinn tíma og að deyja hefur sinn tíma (Pred 3.1).
Vettvangur atburða og sögutími Rúmmálsreiknings eftir Solveg Balle er á milli lífs og dauða. Sögukonan er stödd í einhvers konar martröð. Aðeins hún sjálf líður áfram en samferðarfólk hennar er fast í neti eins dags, 18. nóvember, alltaf og ævinlega.
Dagatalið byrjar alltaf upp á nýtt á sama degi og minningin þurrkast út hjá samferðafólki Töru. Það eldist ekki, það er eilíft án þess að gera sér grein fyrir því. Það getur engu breytt. Lífið nam staðar þennan dag.
Ef til vill má segja að samfélagið og tíminn hafi stöðvast þennan dag á sama hátt og samfélagið í Pompeii sem hvarf undir ösku og að dagurinn sem þá hófst hafi aldrei lokið. Þannig varð líf Töru, tíminn líður með henni en engum öðrum.
Í þessari annarri bók um söguhetjuna Töru varð ég hugsi um samfélagið hennar sem var fullnægjandi áður en tíminn hrökk úr takti. Hún á eiginmann og þau reka eigið fyrirtæki sem býður upp á gefandi samskipti við kollega og viðskiptavini, hún ferðast og lífið hefur nægjanlega tilbreytingu upp á að bjóða.
Allt þetta var tekið frá henni eða dagar uppi í kringum hana. Allir verða vofur og afturgöngur í merkingunni að vakna alltaf aftur sama dag, komast ekki áfram.
Við sjáum Töru standa eina og enga með henni. Strit hennar er til einskis en hún hefur augun hjá sér.
#334. dagur ársins 2024
Dyrabjallan hringir, ég fer til dyra. Tveir karlar standa fyrir utan. Þetta eru Vottar Jehóvar með bæklinginn Von um bjarta framtíð. Sú framtíð felst í eilífu lífi: látnir munu rísa upp frá dauðum, verða hraustir, fullir af æskuþrótti og lifa að eilífu við bestu aðstæður sem hugsast getur.
Ég þakka fyrir og bið þá vel að lifa.
#335. dagur ársins 2024
Alþingiskosningar á Íslandi, kjósendum gefst kostur á að kjósa breytingar, skipta um flokka, hampa sumum og hafna öðrum. Ég er viss um að Tara hefði kosið breytingar.
#336. dagur ársins 2024, nýtt tungl
Í dag fór ég í sund. Í klefanaum sat gamall maður og var að draga á sig fötin. Sonur hans var klæddur og stóð hjá og hringdi í vin og bað hann um að sækja þá. Svo fór ég í sturtu, sund og pott og ræddi meðal annars við bókmenntafræðing um daginn og veginn og líka um verk Tómasar Mann, Rilke, Knausgård og Solveg Balle. Hann kjaftaði í mig að Rúmmálsreikningur II byggi yfir óvæntum endi.
Eftir sundið sem stóð í klukkustund fór ég vitanlega aftur í sturtu og í klefann til að klæða mig. Þá var ég óvænt staddur í bók Balle því í klefanum hófst nákvæmlega sama atburðarás og áður en ég fór ofan í. Þar sat gamli maðurinn og var að klæða sig og sonurinn var að hringja í einhvern sem ætlaði að sækja þá. Sama staða, sama fólk, sami tími.
#337. dagur ársins 2024
„Hvernig hafði ég séð þetta fyrir mér?“ spyr Tara og væntanlega höfundurinn sem hugsar um tímahugtakið. Hverju má líkja tímanum við? Hringekju sem hægt er að stökkva af og á?
Eftir að Tara hafði vaknað og sofnað sama daginn í meira en 365 skipti, þar sem tíminn höktir eins og vísir á veggklukku sem kemst ekki yfir miðnætti til að skipta um dagsetningu, missir hún móðinn um stund.
Hún skimar eftir útgönguleið, því við erum verur í tíma, tímaverur. Tíminn verður að líða. Eilífðin er martröð fyrir lifandi, fólk sem allt myndi vilja vakna af henni eins og Tara þráir.
Ef ég ætti að lifa að eilífu eins og Vottur Jehóva við eina kenningu, eina stefnu, eitt bræðralag, einn guð, einsleitt samfélag og lokuð landamæri (himnaríkis) myndi ég sturlast.
Tara býr við einn dag úr dagatali tímans, 18. nóvember, aðrir eru fastir á eilífum degi án framtíðar.
Tímabundin útgönguleið frá stöðnuninni fyrir Töru felst í ferðalagi í leit að öðru fólki, öðru loftslagi, annarri árstíð. Hún fer í lest, hún fer í ferju en er ekki reiðubúin til að fljúga í háloftunum af ótta við að hverfa af ratsjánni.
#338. dagur ársins 2024
Tíminn virðist engu háður, hann líður bara áfram en þrátt fyrir það er margt sem hefur áhrif því við búum við rúmmál og tímarúm. Það er líka margt sem greiðir fyrir deginum og margt sem hindrar framkvæmdagleði; veðrið, veikindi, slys en við stökkvum ekki svo glatt af hringekju tímans.
Tara er skrásetjari. Hún skrifar dagana niður og heldur árstíðabók, hún ber skynbragð á smáatriði og kemur auga á misræmi þar sem það er að finna.
Allt í einu sé ég fyrir mér að svona verði líf mitt ár eftir ár. Að árstíðabókin sé handbókin mín, ferðafélagi, leiðsögumaður. Að ég sé að byggja framtíð mína. Ef ég á að eiga mér framtíð, verð ég að eiga ár og ég verð að eiga árstíðir. Án árstíða er enginn tími. Ef ég vil eiga árstíðir verð ég að búa þær til sjálf. Ef ég vil eiga framtíð verð ég að búa hana til sjálf (bls. 90).
Við viljum stefna að einhverju, setja okkur markmið, vinna afrek, allt er betra en ládeyða og tilbreytingarleysi alls staðar – nema þar sem stríð og kúgun ríkir auðvitað.
Fólk getur valið sér reglubundið og tilbreytingarlítið líf, vaknað á sama tíma, farið í og úr vinnu þar sem verkefnin eru þau sömu og dagarnir keimlíkir. Fólk festist í hjólförum vanans. Hljómar kannski ekki vel en Tara þráir að vera hleypt inn í tímann aftur, kannski saknar hún eigin rútínu sem hún skapar sjálf. Hún gerir merkilega uppgötvun á tímanum sem hún líkir við ílát. Tíminn verður rými í hennar huga, herbergi, ker, ílát. Dagurinn 18. nóvember sem kemur aftur og aftur verður ílát sem hún sígur niður í. Tíminn streymir ekki, hann er kyrr og gefur henni tíma til að nema staðar og rannsaka til að mynda sögu Rómarveldis.
#339. dagur ársins 2024
Allt sem Töru hefur verið kennt eins og forsjálni og iðjusemi hefur misst gildi sitt í margendurteknum dögum. Klukkustund er sem dýrmætt málverk á degi sem líður og kemur aldrei aftur en klukkustund sem hefur endurtekið sig ellefu hundruð sinnum vegur ekki þungt fremur en fjöldaframleitt veggspjald af málverki.
Á #1144 degi endurtekningarinnar bregður út af vananum og Tara skrifar:
Aldrei skyldi fullyrða að ekki sé frá neinu að segja. Eða að ekki sé neinn sem hlær (bls. 201).
Nú hefur Steinunn þýtt af vandvirkni og metnaði tvær fyrstu bækurnar af sjö um Töru Selter. Höfundurinn hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2022 fyrir fyrstu þrjú bindin. Vonandi birtast þau öll á Íslensku.
Þar sem ég vitnaði í Predikarann í Biblíunni í upphafi er tilheyrandi að enda þessa hugleiðingu:
Að leita hefur sinn tíma og að týna hefur sinn tíma (Pred. 3.1).
Tara týndi sambandi sínu við tímann og leitar aftur inngöngu inn í líf annarra.
P.S.
Ég hvet fólk til að lesa þessar bækur, það er mjög gefandi og ég mæli með því að skrifa dagbók um leið, skrifast jafnvel á við Töru og prófa tímahugtakið hennar á eigin skinni. Þetta er bókmenntaverk sem býður lesendum að sjá líf sitt og annarra í öðru ljósi en hversdagslega, einfaldlega með einni breytingu: að stöðva tímann.